19.10.2010 | 23:14
Björgunarbúningar og vinnuflotbúningar bjarga mannslífum
Björgunarbúningar og vinnuflotbúningar
Mynd: Björgunarbúningur prófaður í Reykjavíkurhöfn 1976 Árið 1987 voru settar reglur um að í hverju skipi 12 m og lengra skyldi búið viðurkenndum björgunarbúningum fyrir alla um borð og má segja að í lok árs 1988 hafi þetta björgunartæki verið komið í öll skip. Hér var stigið stórt spor í að auka öryggi íslenskra sjómanna en sjómenn og áhugafólk um öryggismál sjómanna voru lengi búin að berjast fyrir því að fá björgunarbúninga lögleidda í skip. Strax á eftir setningu reglugerðarinnar sá Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) um að kaupa 3400 björgunarbúninga frá Danmörku til að setja um borð í íslensk fiskiskip og gerðir voru samningar um kaup á 1600 björgunarbúningum til viðbótar. Þetta var gert til að tryggja það að sem bestir búningar yrðu valdir fyrir okkar sjómenn. Á sama tíma fór það í vöxt að sjómenn keyptu svokallaða vinnuflotbúninga sem þeir gátu verið í við vinnu á dekki. Óvíst er hvort menn geri sér yfirleitt grein fyrir því hvað þessir björgunarbúningar hafa í raun haft mikið gildi fyrir öryggi sjómanna. Hér má nefna örfá dæmi.
Í nóvember 1987 fór skipverji af loðnuskipinu Grindvíkingi GK útbyrðis á Halamiðum í myrkri og kulda. Maðurinn náðist aftur um borð eftir 15 mínútur úr köldum sjónum en sjávarhiti var 1 til 3°C. Sjómaðurinn fullyrti að hann hefði ekki komist lífs af nema af því að hann var í vinnuflotgalla sem hann ásamt fleirum úr áhöfn skipsins höfðu keypt viku fyrir slysið.
Þann 22 maí 1993 var Andvari VE 100 að veiðum með botnvörpu í Reynisdýpi . Veður vaxandi austan 6 7 vindstig og þungur sjór. Þegar átti að fara að hífa inn trollið festist það í botni með þeim afleiðingum að þegar verið var að hífa inn togvírana komst sjór í fiskmótöku, spilrými og millidekk með þeim afleiðingum að skipið fékk á sig slagsíðu. Slagsíða Andvara jókst stöðugt og skipverjar klæddust björgunarbúningum. Einn skipverja hugðist sjósetja gúmmíbjörgunarbát eftir að hafa klæðst björgunarbúning en ekki gafst tími til þess þar sem skipið lagðist á hliðina og sökk mjög snögglega. Skipstjórinn gat látið skipstjóra á Smáey VE vita hvernig komið væri en þeir voru að ljúka við að hífa og settu því stefnu strax á Andvara. Það kom sér nú vel að allir skipverjar Andvara komust í björgunarbúninga. Þeir lentu allir í sjónum. Þar héldu þeir hópinn þar til þeim var bjargað um borð í Smáey eftir að hafa verið í sjónum í 20 til 30 mínútur. Það skal tekið fram hér að gúmmíbátarnir á Andvara VE voru ekki tengdir sjálfvirkum losunarbúnaði þar sem ekki hafði unnist tími til að ganga frá þeim búnaði í skipið.
Þann 9. mars 1997 fórst Dísarfellið er það var statt milli Íslands og Færeyja í 8 til 9 vindstigum og þungum sjó. Skipið hafði fengið á sig mikla slagsíðu og misst út nokkra gáma sem flutu kringum skipið. Áhöfn skipsins klæddist björgunarbúningum og var þannig tilbúin að yfirgefa skipið. Þeir höfðu misst frá sér tvo gúmmíbjörgunarbáta og fastan björgunarbát. Skipið hélt síðan áfram að hallast þar til því hvolfdi og skipverjar lentu allir í sjónum. Voru skipverjar í sjónum innan um gáma brak og olíubrák í um tvo klukkutíma eða þar til þyrla Landhelgisgæslunnar TF- LÍF kom þeim til bjargar. Tveir úr áhöfn Dísarfells létust í þessu slysi en 10 björguðust. Í báðum þessum slysum hefðu sjómennirnir ekki lifaða af allan þann tíma sem þeir þurftu að bíða í sjónum eftir hjálp. Þetta eru örfá dæmi um mikilvægi Bjögunarbúninga. Ég er sannfærður um að björgunarbúningar eigi stóran þátt í fækkun dauðaslysa á sjó.
SÞS
Bloggar | Breytt 20.10.2010 kl. 17:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.10.2010 | 22:00
Einu sinni var
Þessa mynd eftir Sigmund fann ég í blaðinu Siglingamál frá árinu 1974.
Á þessum tíma var mikið af skuttogurum fluttir inn til landsins og fanst mörgum kannski helst til mikið keypt af þessum skipum. En þau sköpuðu mikla atvinnu og urðu til þess að hressa verulega upp á landsbyggðina.
Smá sönn saga sem sem ég man eftir frá því ég var á Herjólfi.
Garðar Sigurðsson fyrverandi alþingismaður ferðaðist oft með Herjólfi þegar hann var á þingi og kom hann þá gjarnan upp í brú til okkar í spjall. Garðar var skemmtilegur maður og oft fljótur að svara fyrir sig ef hann fékk spurningar sem ekki var svo sjaldan. Eitt sinn er hann var að koma í frí til Eyja og kom upp í brú til okkar, var hann spurður hvers vegna í ósköpunum þingmönnum detti í hug að hjálpa mönnum að kaupa togara til viss staðar á Austurlandi ? þeir hafa ekkert við hann að gera sagði sá sem spurði.
Garðar svaraði um leið: Af hverju ekki ? þegar þeir uppfylla öll skilyði; Þeir eiga engan pening, skipið flýtur ekki inn í höfnina hjá þeim og þeir hafa engan mannskap á það. Sá sem spuri varð kjaftstopp við þetta svar Garðars.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.10.2010 | 17:26
Minning um mann
Markús B. Þorgeirsson er höfundur að Markúsarnetinu og bjó það í fyrstu sjálfur til í Sjóbúðinni sinni í Hafnarfirði. Hann var mikill áhugamaður um öryggismál sjómanna og eitt af því sem hann barðist hart fyrir var að fá ljóskastara í skip sem er mikið öryggisatriði. Mér er mér það minnisstætt þegar hann kom einn Sjómannadaginn út í Eyjar til að kynna Markúsarnetið og tókst sú kynning mjög vel. Ég held að þá hafi menn fyrst séð að þetta var raunverulegt björgunartæki, þegar menn sáu marga menn vera hífða upp úr sjónum í einu. Seinna kom í ljós að Markúsarnetið var t.d. eina björgunartækið sem dugði til að ná mönnum úr sjó í Kampenslysinu.
Minning um Markús sem er hér til hliðar skrifaði Hannes Þ. Hafstein í Árbók SVFÍ.
Tvíklikkið á mynd til að stækka hana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2010 | 11:51
Stökur eftir Jónas Friðgeir.
Stökur eftir Jónas Friðgeir.
Vertíðar lok.
Það er bágt að borgast hér
með bláan seðiltetur,
það er allt, sem eftir er
af hýrunni í vetur
Hann var tregur í trollið
Skipstjórinn er skaufalegur
skömm er þetta fiskirí,
þorskurinn mér þikir tregur
það er næstum ekkert í.
Við beitningu.
Krókur hér og krókur þar,
krókar eru alls staðar,
alltof lengi lóðirnar
liggja hérna óbeittar.
Landlega.
Ég stari suður heiðar,
stari bara og bíð.
Það er slæmt að stunda veiðar
í stormasamri tíð.
Hugsað við beitningu.
Að berjast áfram bótalaust
standa í skúrnum sleitulaust
býsna lélegt er,
og stara í gaupnir sér.
Brotin flaska.
Í vondu skapi víst ég er
vöknar mér um trýnið
veit ég nú að vitið fer
vel með brennivínið.
Tekið úr Sjómannablaðinu Víkingur frá 1971
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2010 | 21:16
Jákvæð og góð frétt af sjónum
Síldveiðin var góð í vikunni og hefur gengið hratt á síldarkvóta skipa HB Granda. Það kemur mönnum nokkuð á óvart hve síldin gengur seint að þessu sinni út úr íslensku lögsögunni en í fyrra lauk síldveiðum skipa HB Granda í lögsögunni í lok septembermánaðar.
Gott að fá jákvæðar fréttir , nú af blessaðri síldinni sem oft hefur bjargað okkur íslendingum þegar þrengir að okkur, og enn eru það blessaðir sjómennirnir okkar sem koma með mikla bjög í bú. Ætli Steingrímur J. viti af þessu ? ég efast um það.
Kær kveðja
![]() |
Síldin kemur á óvart |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.10.2010 | 20:21
Myndir af Guðrúnu Guðleifsdóttir ÍS 102 á síldveiðum
Guðrúnu Guðleifsdóttir ÍS 102 á síldveiðum, þarna er verið að háfa auðsjáanlega góða síld um borð í skipið.
Á neðri myndinni eru menn í háfnum, þeir heita Grétar Kristjánsson, Elvar Bæringsson og Kristján Eiarsson sem lánaði mér myndirnar. Því miður hef ég ekki fleiri nöfn á skipverjum.
Takk fyrir Kristján að leyfa mér að birta þessar frábæru myndir af sjónum.
Myndirnar á Kristján Einarsson.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2010 | 20:04
Ísing getur verið hættuleg skipum
Myndirnar sem fylgja þessu bloggi fékk ég hjá Kristjáni Einarssyni á Flateyri og eru þær teknar um borð í Guðrúnu Guðleifsdóttir Ís 102. Skipið er að koma af Vestfjarðarmiðum og siglir þarna inn Ísafjarðardjúp mikið ísað eins og sjá má. Guðrún Guðleifsdóttir var þarna á línuveiðum þar sem línan var beitt um borð. Myndir Kristjáns eru teknar veturinn 1968. En þær sýna vel hvað mikil ísing getur hlaðist á skip. Alltaf má búast við ísingu þegar vetur gengur í garð. Eftirfarandi er tekið úr grein er nefnist Ísing skípa eftir Hjálmar R. Bárðarsson fyrverandi siglingamálastjóra:
"ísing skipa er vel þekkt fyrirbæri hér við land, eins og á öðrum norðlægum hafsvæðum. Ísing er það almennt nefnt, þegar ís hleðst á fasta hluti, t.d. á flugvélar, skip, rafmagslínur, loftnet eða mælitæki.Algengasta ástæða ísingar skipa er þegar ágjöf og særok frýs á yfirbyggingum og á möstrum og reiðaskipanna. Til er önnur gerð ísingar skipa, þegar andirkæld frostþoka eða regn frýs og myndar þá ósalt hrím á skipunum. Þetta getur að sjálfsögðu einnig verið skipum hættulegt, en er algengast á heimskautasvæðunum, og kemur hér lítt við sögu og verður því ekki rætt nánar. Hætta sú, sem skipum er búin af ísingu, er að sjálfsögðu fyrst og fremst sú, að vegna mikillar yfirþyngdar ísingarinnar á skipin færist þyngdarpunktur skipanna ofar, þannig að þyngdarstöðugleiki þeirra minnkar, en um leið hlaðast skipin dýpra í sjó og þá rýrnar samtímis formstöðugleiki skipanna. Stöðugleikinn minnkar þannig mjög fljótt, þegar ís hleðst á skip, og er því mjög hætt við að hvolfa snögglega. Vitað er um fjöldamörg sjóslys, sem orðið hafa beinlínis vegna ísingar skipanna, en ennþá fleiri eru jafnvel þau sjóslys, þar sem sterkar líkur eru fyrir að ísing hafi verið meginorsök slyss, þótt enginn hafi verið til frásagnar".
Ég vil þakka Kristjáni Einarsyni kærlega fyrir að leyfa mér að birta þessar myndir sem hann tók um borð í Guðrúnu Guðleifsdóttir ÍS 102.
Á myndini sét til vinstri Bolafjall og líklega svokölluð Ófæra.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.10.2010 | 22:45
Ein besta fréttin
Björgunaraðgerðirnar í Chile ganga snurðulaust fyrir sig en nú eru rúmlega 19 klukkustundir liðnar frá því þær hófust. Tuttugu og fimm námumenn eru komnir upp á yfirborðið en átta bíða enn björgunar.
Þetta er ein besta og gleðilegasta frétt sem ég hef heyrt í langan tíma. Það er uppörvandi og jákvætt að fá svona jákvæðar góðar fréttir innan um og saman við, þegar annars allir fjölmiðlar eru fullir af endalausum neikvæðum fréttum.
![]() |
25 menn komnir upp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2010 | 21:26
Síldarfarmur og löndun
Ein gömul mynd af löndun með nýjustu tækni þeirra tíma, krabbakjaftur. Háfurinn sem notaður var til að háfa upp úr nótinni stendur þarna upp á rönd við vantinn.
Ekki þekki ég mennina en uppi á stýrishúsi stendur Sævar Brynjólfsson skipstjóri til margra ára.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2010 | 21:34
Gamlir bílar í Vestmannaeyjum
Þetta eru myndir af gömlum bílum sem hafa verið í Vestmannaeyjum, orðnar nokkuð gamlar eins og má sjá. Fyrsta myndin er af tveimur bílum upp í skriðu í Herjólfsdal. Á næstu mynd er bíll á Bæjarbryggju. Á myndunum er í einhverjum tilfellum um sama bílinn að ræða en við mismunandi aðstæður.
Bloggar | Breytt 10.10.2010 kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)