31.1.2009 | 00:05
Ellin kemur æskan fer
Ellin kemur æskan fer
ansi dapurt þykir mér
þó á jaxl er best eð bíta
bernskuskónum glaður slíta.
Eilíf æska vill oft vera
valtur þungur kross að bera
Hvorki fyllast hryggð né harmi
heldur beita nýjum sjarmi
.
Mör má sjúga úr mjúkum maga
mittið reyra, tennur laga
fylla í varir, bæta í brjóst
blása hárið, lita ljóst.
Slappa húð má stífa og strekkja
stinningin mun alla blekkja
fylla í hrukkur fjölga hárum
fresta þannig elliárum.
Unga frískar konur fleka
finna sílikonið leka
uppúr fylltum hrukkum flísast
fegurðin þá dofnar vísast
Betra er þá sáttur sitja
seinni ár þá okkar vitja
kúra sinni kerlu hjá
kannski skreppa aðeins á.
Gunnja á Söndum. - Miðfirði
Kær kveðja SÞS
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2009 | 23:59
Halli og Gísli
Haraldur Bergvinsson og Gísli Sigmarsson á tröppunum að Illugagötu 38.
Þeir voru góðir nágranar og vinir eins og sjá má á þessari mynd sem tekin var fyrir margt löngu.
Nú eru þeir á fertugsaldri og orðnir ráðsettir menn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.1.2009 | 23:40
Gamlar vertíðarmyndir
Á þorskanetum, þarna er vel í netunum boltaþorskur og enginn kvoti. Mynd 2. Mb Hildingur VE 3 báturinn var smiðaður í Svíþjóð 1956 hann var 56 brl. eikarbátur með 240 ha. June Munktell vél.
Hildingur VE 3 var smíðaður fyrir Helga Benidiktsson og var báturinn gerður út frá Vestmannaeyjum til ársins 1964 en þá var hann seldur frá Eyjum til Kópavogs. Hann var talinn ónýtur og tekinn af skipaskrá 1967. Helgi Benidiktson útgerðarmaður og fiskverkandi átti tvo aðra svipaða báta sem hétu Frosti VE 363 og Fjalar VE 333.
kær kveðja SÞS
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2009 | 11:15
Vélaverkstæðið Þór fær Fréttapýramítann
Nú hefur árleg afhending Fréttapyramídans farið fram í Vestmannaeyjum. Meðal þeirra sem hann fengu var Vélaverkstæðið Þór. Þetta fyrirtæki á svo sannarlega skilið að fá þessa viðurkenningu. Vélaverkstæðið Þór var stofnað 1964 af þeim Garðari Gíslasyni, Strfáni Ólafssyni og Hjálmari Jónssyni. Fyrstu verkefni voru smíði á tækjum fyrir fiskvinnslu undir vörumerkinu Simfisk en þau tæki hannaði Sigmund Jóhannsson. Þetta voru flokkunarvélar og garnahreinsunarvélar fyrir humar. einnig voru á þessum fyrstu árum framleidd og hönnuð af Sigmund fiskþvottakör fyrir fiskiskip, sem voru bylting í meðferð á fiski um borð í fiskiskipum.
En öryggismál Sjómanna er mér efst í huga þegar ég hugsa um Vélaverkstæðið Þór og þar kemur vinur minn Sigmund einnig við sögu. Árið 1971 fann Sigmund upp öryggisloka við netaspil, undanfari þess voru mörg mjög alvarleg slys á sjómönnum sem voru að fara í netaspilin og slasast, oft mjög alvarlega, þar var um að ræða puttabrot, handleggsbrot og dauðaslys. Þessi loki var smíðaður í vélaverkstæðinu Þór og reyndist að öllu leiti mjög vel. Hann ekki bara fækkaði slysum við netaspil heldur útrymdi þeim alveg. Áður en hann kom til sögunar urðu að jafnaði 12 slys á ári misalvarleg eins og áður er getið.
Þá langar mig að minnast á losunar og sjósetningarbúnaðinn sem oftast er kallaður Sigmundsgálgi. Þessi uppfinning hefur bjargað tugum sjómanna. Það sem einkennir öll þessi tæki og búnaði frá Vélaverkstæðinu Þór er vönduð vinna og frágangur á öllum þessum búnaði. Ég vona að fyrirtækið haldi áfram á sömu braut og haldi áfram að framleiða Sigmundsbúnaðinn og annan búnað í skip.
Núverandi eigendur Vélaverkstæðisins Þór eru: Garðar Gíslason, Svavar Garðarson, Jósúa Steinar Óskarsson, Friðrik Gíslason og framkvæmdastjórinn Garðar Garðarsson. Til hamingju með verðskuldaðan heiður að vera kosið fyrirtæki ársins í Vestmannaeyjum.
Kær kveðja SÞS
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.1.2009 | 19:38
Árni Johnsen heiðraður 1987
Árni Jonsen Heiðraður og sæmdur gullmerki SVFÍ af Haraldi Henrýssyni, fyrir þátt sinn í bárattu fyrir því að Slysavarnarskóli sjómanna eignaðist skólaskipið Þór og áhuga á bættu öryggi sjómanna.
Þegar Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum var slitið 1987 var sú athöfn tengd Slysavaraskóla Sjómanna með því að skólaskipið Sæbjörg (sem áður var varðskipið Þór) kom til Eyja.
Stjórn SVFÍ notaði þá tækifærið til að þakka Árna Johnsen alþingismanni, fyrir þátt hans í því að félagið eignaðist þór sem þá var fljótandi Slysavarnarskóli sjómanna.
Var Árni sæmdur gullmerki SVFÍ fyrir þátt sinn í þessu máli, svo og fyrir margvísleg störf í þágu öryggismála og fræðslumála sjómanna. En Árni hefur alltaf haft mikinn áhuga á öryggismálum sjómanna.
Við þetta tækifæri sagði Árni: ,, Ég er þakklátur fyrir þann hlýhug sem Slysavarnarfélagið sýnir með þessu. Ég lít fyrst og fremst á þetta sem viðurkenningu á frumkvæði og baráttu margra manna í Eyjum fyrir þessum málum. Ég er aðeins einn úr þeirra hópi," sagði Árni Johnsen, þegar hann þakkaði heiðurinn.
kær kveðja SÞS
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.1.2009 | 18:18
Þessi er nú með þeim betri
Tveir ráðalausir
Tveir náungar stóðu og klóruðu sér í hausnum fyrir framan flaggstöng,
þegar konu eina bar að. Spurði hún hverju þeir væru að velta vöngum yfir.
Aaaaa, við eigum að finna hæðina á stönginni en við erum ekki með neinn
stiga. Aaaaa, heyrðist frá konunni, opnaði tösku sína, tók úr henni
skiptilykil, losaði stöngina upp, lagði hana niður, tók nú upp málband
og mældi stöngina: Stöngin er 5 metrar og 65 sentimetrar strákar mínir, að svo mæltu hélt hún leiðar sinnar.
Eftir stóðu þeir félagar skellihlægjandi: Er þetta ekki dæmigert fyrir
konur sögðu þeir, okkur vantaði hæðina á stönginni en hún sagði okkur lengdina.
Þessir félagar eru hátt settir menn í fjármálageiranum á Íslandi og starfa
fyrir íslenska ríkið.
Vantar okkur ekki fleiri konur í bankana??
kær kveðja SÞS
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.1.2009 | 17:08
Minningar um fyrstu vélstjóravaktina mína
Fyrsta vakt mín sem vélstjóri.
Það var um árið að ég réð mig sem vélstjóra á Gullborgu ER 38. Skipstjóri var Benóný Friðriksson oftast nefndur Binni Í Gröf. Fyrsti vélstjóri var Einar Sigurðsson, sem var með Binna í fjölda ára, hann var hörkuduglegur náungi og eldklár vélstjóri . Báturinn var búinn til síldveiða með nót.
Ég hafði þá nýlega lokið vélstjóranámskeiði Fiskifélags Íslands, sem haldið var í Eyjum 1963 að Breiðabliki og verkleg kennsla á vélar og rafmótora var kennd í gömlu rafstöðinni við Kirkjuveg. Þetta námskeið gaf mér vélstjóraréttindi allt að 400 hestöflum sem dugði til að vera vélstjóri á flestum bátum í Eyjum á þessum tíma. Á þessum tíma fannst manni maður vera búinn að mennta sig til lífstíðar. Það væri synd að segja að ég hafi ekki haft áhuga á starfinu og öllu því sem við kemur vélum, fannst ég reyndar búinn að læra svo mikið um vélar að ég væri fær í flestan sjó.
Um þetta leyti var Gullborgin orðin hrörleg og illa útlítandi (seinna var hún endurbyggð) . Vægast sagt voru mannaíbúðir vart mönnum bjóðandi, svo ógeðsleg var slagvatnslyktin þegar báturinn fór að velta eftir inniveru að maður komst ekki hjá því að vera sjóveikur fyrstu klukkutímana um borð. Sem dæmi má nefna að svo hriplegt var þilfarið að ef rigndi eða smá pus gekk yfir bátinn þegar keyrt var á móti í slæmu veðri, þá lak sjór eða vatn niður í mannaíbúðir. Svo ekki læki í efri kojur, var segl neglt fyrir ofan þær og þannig var lekanum veitt út í síðu svo sængurfötin blotnuðu ekki.
Þá var ekki óalgengt að bekkirnir við matarborðið klipu mann óþyrmilega í afturendann, sérstaklega þegar voru brælur og mikill veltingur. Skýringin á þessu var að síldarnótin var í nótarkassa aftur á bátadekki fyrir ofan kokkhúsið og messan. Í veltingi liðaðist þetta sitt á hvað með braki og brestum. Ég hef oft hugsað um þetta eftir að ég varð sjálfur skipaskoðunarmaður, í dag fengi bátur í þessu ástandi ekki að fara á sjó.
Minnistætt er mér að á kabyssurörinu hjá Magga Kokk ( Magnús Sigurðsson) var samsetning á rörinu sem gekk upp og niður í rörið um nokkra sentimetra á veltunni, það var magnað að fylgjast með þessu. Oft var hlegið dátt af þessu en menn gátu fylgst með þessu frá matarborðinu. Ég sagði eitt sinn við Binna að mér finndist braka ískyggilega mikið í bátnum, en hann svaraði að bragði að þetta væru traustabrestir, sem ekki heyrðust nema í góðum bátum. Svei mér þá ég held í alvöru að hann hafi meint þetta.
Minnistæðast frá þessari vertíð er mín fyrsta vakt sem vélstjóri og við fengu fullfermi af síld.
Binni kastaði austarlega í Bugtinni og fengum við strax gott kast. Þegar búið var að þurrka að var strax byrjað að háfa síldina upp í bátinn, og er nokkuð var komið í lestina fór Einar vélstjóri niður í vél. Stuttu síðar er var skellettinu á vélarrúminu skrúfað upp og Einar heyrist öskra: ,,Binni slökktu á kastaranum ég þarf að lensa" . Um borð í Gullborg voru rafmagnslensur, en rafmagnsframleiðsla var ekki nægilega mikil til að nota bæði lensur og ljóskastara samtímis.
Það gekk vel að fá í ,,Gonnuna" ein og Einar kallaði bátinn oftast, og við fengum 1100 tunnur í tveimur köstum. Þegar lagt var af stað til lands var byrjað að bræla, og báturinn sigin með þennan afla.
Einar hafði á útleiðinni kennt mér á vélina, lensurnar og fleira, hvernig ég ætti að fylgjast með mælum og fleiru sem góðum vélstjóra sæmir. Þá sýndi hann mér rafgeymakompuna sem er nú ekki staður sem daglega er litið eftir.
Þegar ég kem aftur í borðsal eftir að búið er að gera sjóklárt á dekkinu, er Einar vélstjóri að koma upp úr vélarhúsi. Hann segir að nú eigi ég að taka mína fyrstu vakt, en ég þurfi nú ekki að fara strax niður því hann sé nýbúinn að smyrja og lensa, það þurfi því ekki að fara niður fyr en eftir hálftíma. Á þessum árum var það regla á þessum bátum að vélstjóri fór í vélarrúmið til eftirlits á hálf til eins tíma fresti.
Ég settist því bara niður í borðsalnum og fékk mér kaffi með hinum skipverjunum en það var alltaf gott með kaffinu hjá Magga kokk, hann var góður kokkur og skemmtilegur karakter.
Einar fer nokkru síðar í koju, en minnir mig á að hika ekki við að vekja sig ef eitthvað athugavert komi uppá. Einar hafði koju frammí lúkar á Gullborg.
Nokkru síðar fer ég niður í vélarrúm að huga að vélinni og athuga hvort einhver sjór sé kominn í bátinn. Ég byrjaði á að fara afturí rafgeymakompu, og athuga geymana eins og góðum vélstjóra sæmir. Rafgeymakompan var út við síðu frekar ofarlega. Þegar ég opna þar inn bregður mér heldur en ekki í brún, þegar ég sé að sjór lekur þar inn um síðuna - þó nokkur leki að mér fannst.
Ég hljóp upp úr vélarrúmi og í stýrishúsið til Binna skipstjóra og sagði honum all óðamála, að allmikill leki væri inn í bátinn í rafgeymakompunni. Ekki gat ég séð á Binna að honum brygði mikið við þessi tíðindi, en sagði við mig sallarólegur eitthvað á þá leið , að ég skyldi láta Einar vélstjóra kíkja á þetta.
Ég hljóp því næst fram í lúkar þar sem Einar lá steinsofandi í koju sinni. Vakti ég hann og sagði honum að mikill leki væri kominn að bátnum. Það læki sjór inn í bátinn afturí geymakompu og hann yrði að koma og kíkja á þetta. Einar hentist fram úr kojunni og í stigvélinn sín en spyr um leið hvort þetta sé mikill leki. ,, Já töluverður" segi ég. Alla vega verður þú að kíkja á þetta. Hljóp ég síðan aftur í vélarrúm og Einar fast á hæla mér. Þegar við komum niður að geymakompu, bendi ég honum á lekann, sem mér þótti heldur hafa aukist. ,,þarna er hann" segi ég töluvert æstur. Einar litur á lekann og síðan á mig og segir sallarólegur: ,, Er þetta nú allur lekinn? ". ,,Já",segi ég, ,,finnst þér þetta ekki töluvert mikið? - það lak hér ekki dropa í morgun".
Einar leit á mig hálfgerðum vorkunnaraugum og segir, að mér fannst hálffúll: ,, Að vísu lak hér ekkert í morgun það veit ég, en það er nú einu sinni þannig, að þegar komið er í Gonnuna sígur hún í sjó og það fer að leka á ýmsum stöðum og það oft meira en þetta. Við köllum þetta vart meira en rottupiss". Að svo mæltu fór Einar upp en sagði um leið við mig að ég mætti ekki vekja sig nema eitthvað umtalsvert kæmi uppá. Ég sat eftir hálfskömmustulegur, en fór svo að smyrja vélina og lensa út ,, rottupissinu".
Vaktin gekk vel og tíðindalaust eftir þetta og siglingin heim til Vestmannaeyja. Þar með lauk minni fyrstu vakt sem vélstjóra. En í vélstórastarfinu var ég í 11 ár á þremur bátum í Eyjum.
Myndir: nr.1 Gullborg RE 38 takið eftir síldarnótinni aftur á bátapalli, nr.2. Binni með hnísu sem hann skaut, nr. 3. Einar Sigurðsson vélstjóri. Nr. 4. Magnús Sigurðsson kokkur. nr. 4. Óskar og Binni.
Kær kveðja
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.1.2009 | 18:13
Rörsteypan í Vestmannaeyjum
Mynd 1. Rörsteypan húsakostur og hluti af framleiðslu. Mynd 2: Vélar í rörsteypu bæjarinns og starfsmenn Rörsteypu Vm.
Árið 1957 var Rörsteypan keypt af fyrirtækinu Pípugerð Vestmannaeyja hf. Voru hellugerðarvélar keyptar 1959 og aðstaða bætt til framleiðslu á holræsirörum og gangstéttarhellum. Með helluvélunum sem keyptar voru á þessum tíma var hægt með fjórum mönnum að framleiða 1000 til 1200 hellur á viku, eða 50 til 60 þúsund hellur á ári ef unnið hefði verið að framleiðslunni eingönngu. Þetta þættu kannski ekki mikið með þeirri tækni sem notuð er í dag, en voru góð afköst á þessum tíma.
Vignir Eggertsson
Myndir og upplýsingar eru fengnar úr riti sem heitir: Framkvæmdir og fjármál Vestmannaeyjakaupstaðar 1954 til 1961. Gefið út af Sjálfstæðisflokknum í Eyjum.
kær kveðja SÞS
Bloggar | Breytt 24.1.2009 kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
15.1.2009 | 23:27
Steingrímur Sigurðsson skipstjóri heiðraður 1981
Á myndinni er Pétur Sigurðsson þáverandi formaður Sjómannadagsráðs að afhenda Steingrími Sigurðssyni skipstjóra, Vestmannaeyjum afreksbjörgunarverðlaun á Sjómannnadaginn 1981.
Þann 8 janúar 1981 bjargaði Steingrímur Sigurðsson skipstjóri á Bjarnarey VE 501, 17 ára skipverja frá drukknun, er hann tók fyrir borð með netatrossu þegar skipið var að veiðum undan Hjörleyfshöfða. Synti Steingrímur með björgunarhring til piltsins en síðan voru þeir dregnir að skipshlið og teknir um borð.
Haustið 1978 tók son Steingríms fyrir borð með síldarnót og þá bjargaði faðir hans honum á sama hátt. Steingrímur var sæmdur afreksbjörgunarverðlaunum fyrir þessi björgunarafrek á Sjómannadaginn í Reykjavík 1981.
Kær kveðja SÞS
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.1.2009 | 20:06
Enginn mannskaði varð á sjó 2008
Einhver gleðilegasta frétt sem sem ég hef lesið og heyrt á nýbyrjuðu ári er að enginn mannskaði varð á sjó á árinu 2008. Telja menn að það þurfi jafnvel að fara allt aftur á landnámsöld til að finna slysalaust ár á sjó. Þetta er árangur margra manna og kvenna sem í tugi ára hafa unnið að slysavörnum sjómanna. Gaman væri að taka saman í grein hvernig unnið hefur verið markvist að fækkun dauðaslysa sjómanna. Þar hafa margir komið að og væri því fróðlegt að taka það saman.
En þó dauðaslysum hafi fækkað hefur því miður ekki öðrum slysum á sjó fækkað að sama skapi, þar er því verk að vinna.
Á aðalfundi SVFÍ að Laugum , sumarið 1981 kastaði Sigrún Sigurðardóttir fram þessari vísu:
Breyta, laga, byggja fleira,
bætum okkar starf.
Vaka, starfa, vinna meira,
vilji er allt sem þarf.
Kær kveðja SÞS
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Upplýsingar frá Vigni Eggertsyni
Maðurinn til vinstri er, Eggert Pálsson. Fæddur á Fit undir Eyjafjöllum 19 -10 - 1916 D: 2 - 1 - 2000. bóndi á Núpi Eyjafjöllum. Flutti til Eyja 1953 og keypti þá Faxastíg 12. Vann lengi í steipustöðini og rörsteypuni, var verkstjóri þar síðustu árin sem bærinn átti þessi fyrirtæki. Flutti til Reykjavíkur gosnóttina, endaði starfsárin sem póstur í R.V.K
Maðurinn til hægri, Stefán Valdasson Bröttugötu 6, húsið sem er fyrir ofan rörsteypuna á myndini(dökka) var í steypustöðinni janf mörg ár og Eggert. Bróðir Sigga Valds á Vallagötuni og Ánra Valda (Gösla) og tengdababbi Agnas Ángantírssonar sem var yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum.