21.1.2010 | 20:59
Valmundur, Snorri og Bjarni Ólafur
Myndin er tekin á Sjómannadegi fyrir nokkrum árum.
T.f.v; Valmundur Valmundsson nú formaður Sjómannafélagsins Jötuns, Snorri Óskarsson kennari og Bjarni Ólafur Guðmundsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2010 | 21:40
Vélskólinn í Vestmannaeyjum 1963 til 1964
Vélstjóraskólinn í Vestmannaeyjum 1964. Klikkið tvisvar á myndina til að stækka hana.
Myndirnar tók Óskar Björgvinsson ljósmyndari.
Efsta röð t.f.v; Brynjólfur Jónatansson kennari, Friðrik Pétursson kennari, Guðmundur Eírilksson skólastjóri, Henrik Linnet kennari, Magnús H. Magnússon kennari. Önnur röð t.f.v; Þór Í Vilhjálmsson, Magnús Stefánsson, Örligur Haraldsson, Ágúst Guðmundsson, Pétur Guðmundsson, Gunnar Halldórsson, Vilhjálmur Geirmundsson, Björn Pálsson. Þriðjaröð t.f.v; Guðni Benediktsson, Jóel Guðmundsson, Sigmar Þ. Sveinbjörnsson, Borgþór Pálsson. Fjörða röð t.f.v; Guðmundur Gíslason, Sigurbjartur Kjartansson, Valur Svavarsson, Jón Guðmundsson, Kristmann Kristmannsson, Helgi Egilsson, Grímur Magnússon, Sigurður Sigurðsson.
Til fróðleiks má geta þess að þarna á myndinni eru 20 nemendur, 17 af þeim bjuggu í Vestmannaeyjum um lengri eða skemmri tíma. Af þessum 17 mönnum dóu 3 í sjóslysum þeir Örlygur Haraldsson, Jóel Guðmundsson og Guðmundur Gíslason.
Það sem m.a. er minnistætt frá þessu ári og námskeiði er að Surtur fór að gjósa á árinu 1963 þegar námskeiðið stóð yfir og ég man að þetta var góður hópur í þessum árgangi. Þetta námskeið í vélstjórn gaf okkur réttindi til vélstjórar með 400 hestafla vélar. Þetta þótti góður skóli í þá daga því það voru ekki margir bátar í Eyjum með stærri vélar. Í dag eru margir smábátar með langt yfir 500 hestafla vélar.
kær kveðja
Bloggar | Breytt 21.1.2010 kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.1.2010 | 21:32
Fleiri góðar Gosmyndir frá Ómari Kristmanns
Eldfellið séð frá Friðarhafnarbryggju þarna er fjallið enn spúandi eldi í apríl 1973.
Þarna sést yfir á Básaskersbryggju og næst á myndinni er Olíuportið og yfir það má sjá Emmuhúsið sem í dag er í eigu Benónýs Gíslasonar.
Prammi hafnarinnar í Eyjum við Nausthamarsbryggju. Þarna er dæling á hraunið í fullum gangi sjá má dæluvélarnar á prammanum og Fiskiðjuna til hægri á myndinni. Þótt menn hafi ekki allir í fyrstu haft trú á að dælig og kæling hraunsins mundi hefta hraunrennslið, held ég að flestir hafi í lokin viðurkennt að þessi aðgerð hafði tilætluð áhrif og hraunið hefði farið mun lengra ef ekkert hefði verið gert til varnar.
Útvegsbanki Íslands held ég hann hafi heitið í þá gömlu góðu daga.
Hér sjáum við austur að nýjahrauninu, og vikur kominn upp á glugga.
Myndirnar tók Ómar Kristmannsson í apríl 1973.
Kær kveðja SÞS
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.1.2010 | 23:56
Gosmyndir frá Ómari Kristmannssyni
Þessar myndir eru teknar í apríl 1973 af Eldfelli og húsum á kafi í ösku. Ekki er ég klár á við hvaða götu þessi hús eru, en gaman væri ef einhver þekkti húsin og götu og að sá hinn sami setti hér inn athugasemd.
Hér á mynd tvö er Sjúkrahús Vestmannaeyja en það stendur við Sólhlið. Einnig sjást nokkur hús sem standa við Helgafellsbraut. Þarna sést lika vel Eldfellið spúandi gosreyk og líklega einhverri ösku með.
Myndirnar tók vinur minn Ómar Kristmannsson í apríl 1973
Bloggar | Breytt 19.1.2010 kl. 08:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.1.2010 | 23:11
Frændurnir
Frændurnir t.f.v: Grímur og Gísli Gíslasynir ( Grímur kokkur sem býr til bestu fiskibollur í heimi) Sigmar Þröstur Óskarsson fyrverandi handboltamarkmaður og Benóný Gíslason.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.1.2010 | 22:58
Myndir frá gosinu og hreinsun ösku
Þetta eru myndir sem ég tók í gosinu og þegar verið var að hreinsa bæinn eftir gosið 1973.
Þessi vegur liggur hér framhjá húsinu Bjarma og upp á nýjahraun. Á myndinni eru Kolla og Gísli . Á seinni myndinni eru bílar á krossgötum Kirkjuvegar og Illugagötu fullir af vikri en mikil vinna var við að hreinsa vikurinn sem dreifðist yfir bæinn í eldgosinu. Vikurinn var m.a. notaður í flugvöllinn og vegi vestur á Heimaey.
Bloggar | Breytt 17.1.2010 kl. 01:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.1.2010 | 22:36
Blaðið Samfélagið
Þetta blað Samafélagið, blað Vestmannaeyinga í dreifingunni var gefið út árið 1973 og dreift ókeypis til allra Vestmannaeyinga sem dreifðir voru um allt landið. Ekki veit ég hvort gefin voru út fleiri blöð en þetta.
Í fyrstu grein blaðsins er nefnist Fylgt úr hlaði skrifar Þórsteinn Lúter m.a. en of langt mál yrði að skrifa hér upp alla greinina, en Þorsteinn Lúter var öflugur málsvari Eyjamanna á þessum tíma:
"Fylgt úr hlaðiÞetta blað, sem nú hefur göngu sína á brýnt erindi við okkur alla Vestmannaeyinga og því brýnna sem við erum dreifðir um allar jarðir. Við sem fram til örlaganæturinnar 23. janúar s.l. höfum verið eitt bæjarfélag, vorum á einu andartaki slitinn upp með rótum. Við urðum að yfirgefa átthaga og eignir, segja skilið við ævistarf og slá striki yfir allar áætlanir um verklega framkvæmdir í byrjun vertíðar og um nána framtíð.
Þótt segja megi um okkur Vestmannaeyinga, eins og reyndar um alla menn, að svo sé margt sinnið sem skinnið, eigum við engu að síðu það sameiningartákn, sem auðkennir okkur afdráttalausar en flest önnur byggðarlög á landi hér, en það er rótgróinn samfélagskennd, sem byggist á aldagamalli og áhættusamri lífsbaráttu og rótgrónum venjum og hugsunarhætti sjómannsins og sjómannskonunnar og gengið hefur í arf frá einni kynslóð til annarar.
Með þessu er ekki sagt, að við séum alltaf sammála um allt, sem fyrir kannað koma í daglegu lífi . En það eitt að ræða málin frá öllum hliðum hrærir upp í fólki, skapar líf og vöxt, en aldrei kyrrstöðu. Það sýna hinar stórstígu framfarir og hið þróttuga athafnarlíf, sem löngum hefur gert þennan garð frægan og skapað hefur betri og jafnari efnalega velsæld en þekkst hefur annars staðar.
Þetta hefur ekki gengið átakalaust, en áræði, kjarkur og þrek hefur brýnt menn til nýrra og æ stærri framkvæmda, er jafnan hafa reynst samfélaginu til heilla. Þótt margir væru í fyrstu uggandi um afdrif djarfra fyrirætlana, hefur komið á daginn undantekningarlitið, að óhætt hefur reynst að fylgja brautryðjendunum."
(Þetta rifjar upp minningar frá þessum árum)
Eldgosið 1973 séð í gegnum Eiðið, þetta var algeng sjón okkar sjómanna sem vorum á veiðum við Vestmannaeyjar á þessum tíma.
Bloggar | Breytt 17.1.2010 kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2010 | 22:25
Nafnar saman
Nafnarnir saman:
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, Sigmar Guðmundsson, Sigmar Gíslason, og Sigmar Þröstur Óskarsson.
Kær kveðja SÞS
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.1.2010 | 21:55
Götupartý við Illugagötu sumarið1990
Árið 1990 var haldið eftirminnilegt götupartý við Illugagötuna, þessi skemmtun var í Þjóðhátíðarstíl og tóku margir þátt bæði börn og fullorðnur. Stóð skemmtun þessi langt fram á kvöld og þó þarna hafi verið þjóðhátíðar stíll á liðinu sást ekki vín á nokkrum manni, nema einum sem átti ekki heima við Illugagötuna, enda var honum keyrt heim hið snarasta. Annars segja myndirnar sína sögu af þessu skemmtilega götupartý okkar Illugagötubúa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.1.2010 | 22:11
Gosárið 1973 er eftirminnilegt
Árið 1973 þegar eldgosið stóð yfir á Heimaey var gefið út blað er fékk nafnið Samfélagið með undirfyrirsögn : Blað Vestmannaeyinga í dreifingunni. Ritstjórar og ábyrgðarmenn voru prestarnir Þorstein Lúter Jónsson og Karl Sigurbjörnsson. Blaðinu var dreift ókeypis til allra Vestmannaeyinga sem voru dreifðir um allt landið. Þeir sem skrifuðu í þetta blað voru auk ritstjóranna þeir Sigurbjörn Einarsson og Gunnar Thoroddsen.
Þorsteinn Lúther Jónsson var prestur Vestmannaeyinga frá árinu 1961 til 1975. Hann var fæddur í Reykjavík 9. júlí 1906 og lést 4. október 1979, myndin hér til hliðar er af Þorsteini Lúter.
Tvö ljóð eftir sr. Þorstein Lúter Jónsson eru í umræddu blaði og lýsa þau vel þessum eftirminnilegu tímum. Ég kynntist Þorsteini Lúter nokkuð vel er hann kenndi okkur við Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum, hann var frábær maður og góður penni hvort sem hann samdi ljóð eða skrifaði greinar í blöð. Ég birti meira úr þessu blaði á næstu dögum en hér koma ljóðin:
Andspænis náttúruhamförum
Orðin svört með sog og læti,
sóknardjarfa Eyjan mín,
aska byrgir öll þín stræti,
eldur gleypir húsin þín,
hrynja veggir, hníga þök,
hér við gígsins valdatök,
með voðalegum eldi í æðum
alla býr þig sorgarklæðum.
En lífsins guð æ boðar bætur
bænarorðum gefur svar,
í roða dagsbrún rísa lætur
ríki nýrrar framtíðar:
bjartir dagar fegra fold,
frósöm talar gróðurmold,
sjómenn glaðir sækja miðin,
sól upp runnin, nóttin liðin.
Að tveimur mánuðum liðnum
Eldregnið æðir,
Eyjunum blæðir,
eldurinn eyðandi fer.
Farg-þunginn flæðir,
faðminum læðir.
Hrammurinn hrauntungan er.
Stormur hér stinur,
sterkur er dynur,
megnar ei mannshöndin neitt
að hjálpa, er hrynur
húsið þitt vinur,
sem áður var athvarf þitt eitt.
Brakar og brestur,
bjálki hver gnestur,
er byltist og bifast þitt hús.
Vor guð veri gestur,
sem í getunni er mestur
og ætíð til aðgerða fús.
Þ.L.J
Kær kveðja SÞS
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)