30.7.2009 | 18:00
Þjóðhátið Eyjamanna í Herjólfsdal

Nú er hafin Þjóðhátíð Eyjamanna, eitt af því sem hún hefur skilið eftir er Þjóðhátíðarblaðið og þjóðhátíðarlag. Mörg mjög falleg lög og textar hafa verið gerð í tilefni þjóðhátíðar og þekktust eru þau gullfallegu lög og textar eftir Oddgeir Kristjánsson og Ása í Bæ. En það hafa margir fleiri gert bæði falleg lög og texta þó þau hafi ekki náð að verða eins þekkt og lög og textar Oddgeirs og Ása. Hér kemur einn þjóðhátiðartexti eftir Guðjón Weihe, sem hann gerði við lag Lýð Ægissonar, en Lýður er einnig skemmtilegur textahöfundur bæði á ljóð og ritað mál.
Í skjóli Fjalla Þjóðhátíðarlag 1985
; Í Herjólfsdal vil ég vera
vaka þar kvöldin löng.
Ævintýrin bjarmarnir bera
brekkurnar óma af söng.;
Mig heilla hlýju ágústnætur
við húmsins skýru ævintýra rún.
Logar bálið lýsir klettarætur
leiðist æskan framhjá tjarnarbrún.
Hér vil ég lifa leika í skjóli fjalla
og líta yfir ævi farinn veg.
Ó að ég mætti öll þau aftur kalla
árin sem að liðu á hulduveg.
Í Herjólfsdal vil ég vera o.s.f.v.
Hvað er fegra en dalsins frjálsu stundir
fannhvít tjöld og bál í klettasal.,
Fagra söngva fjöllin taka undir
friður ríkir inn í Herjólfsdal.
Hér vil ég lifa- leika í skjóli fjalla
Og líta yfir ævi farinn veg.
Ó að ég mætti öll þau aftur kalla
árin sem að liðu á hulduveg.
Í Herjólfsdal vil ég vera o.s.f.v.
Texti Guðjón Weihe við Lag eftir Lýð Ægisson
Athugasemdir
Gleðilega Þjóðhátíð Sigmar og megir þú og fjölskylda þín hafa það sem allra best.
Jóhann Elíasson, 31.7.2009 kl. 06:42
Heill og sæll Jóhann, og takk fyrir góðar óskir um gleðilega þjóðhátíð. Á siðustu árum hef ég nú haldið mig hér heima í Kópavogi um Verslunarmannahelgi og ekki farið á þjóðhátið í 12 ár en hugurinn er þar alltaf um þessa helgi. Eyjalögin vekja upp minningar um þessa skemmtilegu hátíð sem sem er svo sérstök hjá öllum sem hafa upplifað hana. En það er líka gott að slappa af heima hjá sér og lesa góða bók eða grúska í gömlum blöðum og bókum sem er eitt af mínum áhugamálum.
Jóhann takk fyrir innlitið og hafðu það gott um Verslunarmannahelgina
kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 31.7.2009 kl. 11:35
Sama hér Sigmar mér finnst best að vera bara heima kannski er maður ekki jafn áræðinn og áður með að skella sér bara af stað þessa helgi. Ég trúi því að með því að hugsa hlýlega til fólks þá líði því betur, í það minnsta líður mér betur. Ég þakka þér góðar óskir nú er hafinn undirbúningur hjá mér fyrir veturinn. Það er sko alveg hreint hverju orði sannara að Eyjalögin vekja upp alveg sérstaka stemmingu, sem ég fullyrði að á ekki sinn líkan í heiminum, alltaf þegar Eyjalag byrjar þekkist það STRAX.
Jóhann Elíasson, 31.7.2009 kl. 14:09
Sæll félagi. Tek undir það sem vinur minn Jóhann skrifa hér að ofan. Og myndin af bekkjabílnum finnst mér alveg frábær. Maður getur ekki annað en hlegið þegar maður ber svo saman í huganum bekkjabílana í dag. Ég verð að hringa í "vissan"mann eftir helgi og benda honum á þetta. Gleðilega Þjóðhátíð og kært kvaddur sem ævinlega
Ólafur Ragnarsson, 1.8.2009 kl. 00:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.