3.10.2013 | 23:45
Fróðleg grein um myglusveppi í húsum
10. janúar 2013 | Aðsent efni | 897 orð | 1 mynd
Hvað eru myglusveppir í húsum?
Eftir Eirík Þorsteinsson
"Hvað þarf að hafa í huga varðandi aðstæður sem auka líkur á sveppamyndun í húsum og hvernig á að bregðast við?"
Mikið hefur verið fjallað um myglusveppi sem hafa tekið sér bólfestu í híbýlum landsmanna og fór umræðan sérstaklega af stað þegar ljóst var að fjöldi nýrra húsa á Austurlandi er sýktur af myglusveppum. Sveppir af þessari tegund hafa fylgt híbýlum manna alla tíð. Til dæmis er fjallað um þá í Biblíunni, 3. Mósesbók. Hús sem búið er í eiga að vera heilbrigð, án raka, sveppa og annarra óhreininda sem geta haft áhrif á heilsu fólks.
Myglusveppurinn er hluti af hringrás lífsins, hlutverk hans í hringrásinni er að brjóta niður lífræn efni þannig að til verði jarðvegur sem lífverur geta vaxið í. Sveppir senda frá sér örsmá gró. Hlutverk gróa er að festa rætur og mynda sveppi sem hefja niðurbrot. Forsendur þess að niðurbrot geti hafist eru að vatn, næring og hiti séu til staðar.
Gróin svífa með vindinum og tilviljun ein ræður hvar þau lenda inni eða úti. Þau berast þannig inn í vistarverur okkar um glugga, hurðir, með loftræstikerfum og með loftun í veggjum og þökum. Gró sem berast inn í hús blandast við rykið sem er í húsinu og berast þannig um húsið og setjast ofan á hillur, undir rúm og inn í bækur; sem sagt alls staðar þar sem ryk sest.
Í húsum sem eru laus við raka ná gróin ekki að spíra og eru fjarlægð með öðru ryki þegar þurrkað er af og eða ryksugað.
Gró sem berast inn í hús þar sem raki er vandamál spíra og hefja það verkefni sem þeim er ætlað að vinna að mynda sveppi sem brjóta niður lífræn efni svo sem pappa, pappír, lím, málningu, tré og öll lífræn efni sem finnast í ryki.
Raki verður vandamál þegar hann kemst inn í lokuð rými. Til dæmis þegar rakasperra (rakavörn í veggjum) er óþétt og rakt inniloftið kemst inn í veggi eða þök þar sem það mætir köldum flötum og rakinn þéttist úr loftinu og sest fyrir (eins og droparnir sem myndast utan á glasi af köldu vatni).
Sömuleiðis er raki oft mikill í byggingum á byggingartíma og þess ekki alltaf gætt að rakinn sé farinn þegar gengið er frá einangrun og veggjum og þökum lokað, en þá myndast einnig kjöraðstæður fyrir gróin. Hús eru mjög þétt í dag og því helst raka loftið sem fylgir okkur inni í húsinu ef við loftum ekki út. En raki myndast þegar við eldum mat, förum í bað og eða bara öndum.
Algeng orsök sveppa er vatnsleki og oft verðum við ekki vör við þennan leka fyrr en eftir langan tíma og þá hafa myndast kjöraðstæður fyrir gróin að spíra. Þegar vart verður við lekann þarf að uppræta hann og sjá til þess að raka svæðið verði þurrkað vel og sýkt svæði hreinsað áður en gengið er endalega frá.
Fyrst þurfum við að hafa það í huga að gróin spíra í húsum okkar þegar raki og hiti er nægur. Því til viðbótar þurfa að koma til lífræn efni sem er nóg af í húsum. Daglega þurfum við að umgangast vistarverur okkar þannig að ekki geti myndast kjöraðstæður fyrir gróin til að spíra og það gerum við með því að lofta út.
Þegar hús eru hönnuð þarf að gæta þess að loftunin sé rétt hönnuð. Hér er átt við alla loftun í húsum, klæðningu og þök að utan og innan. Frágangur á einangrun og rakavarnarlagi þarf einnig að vera rétt hannaður og hönnun á lögnum þarf að vera þannig að ekki sé hætta á smiti vegna kaldra röra.
Óvönduð vinnubrögð við byggingu húsa eiga stóran þátt í því að raki er í húsum. Þaksperrur geta hafa verið keyptar af timbursölum sem geyma efnið úti og þar af leiðandi safnast í sperrurnar raki sem hleypir af stað sýkingu. Einnig gerist það oft að verktakar koma með sperruefnið snemma á byggingarstaðinn og skilja það eftir óvarið fyrir veðri og vindi. Einnig er það algengt að sperrur eru reistar og þakið klætt en stendur síðan óvarið í lengri tíma. Ef byggingu er lokað áður en búið er að þurrka hana myndast kjöraðstæður fyrir gróin að spíra. Byggingunum getur verið lokað í miklum raka, jafnvel með ofangreindan raka byrgðan inni og þess ekki gætt að það lofti nægilega um byggingarnar. Þegar svo sólin skín og hiti hækkar inni vakna gróin til lífs og geta þessar byggingar þá orðið grámyglaðar að innan. Oft er gengið frá einangrun, klæðningu á veggjum og loftum og jafnvel innveggir reistir þegar þetta rakaástand er í byggingunni og lokast þá af rými með kjöraðstæður fyrir gróin. Algengt er að veggir séu yfirborðsmeðhöndlaðir eftir að sýking hefur komist í fletina og við réttar aðstæður er hætta á að sveppirnir nái sér á strik.
Í dag er mikið rætt um vistvænar byggingar, en þessar byggingar eru gjarnan enn þéttari en aðrar og kalla á enn meiri aðgát við hönnun og að farið sé eftir öllum reglum hvað varðar framkvæmdir. Að auki þarf að lofta út í þessum byggingum eins og öðrum.
Sveppir spyrja ekki að því hvaða lífræna efni þeir eru sestir á og ef raki og hiti er til staðar þá lifna þeir við. Því þarf að hafa í huga hvaða aðstæður auka líkur á sveppamyndun, hvort sem litið er til þess þegar hús eru byggð (t.d. varðandi rakastig á efni eða aðferðir við byggingu) eða í þeim er búið (t.d. þegar vart er við leka eða hugað er að daglegri loftun).
Eftir Eirík Þorsteinsson
Höfundur er sérfræðingur í timbri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Trétækniráðgjöf slf.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.