19.1.2012 | 13:14
Slys á norskum smábátum
Hafa áhyggjur af tíðum banaslysum
Frá árinu 1990 hafa 122 trillukarlar í Noregi látið lífið við störf sín.
Samkvæmt tölum norsku rannsóknastofnunarinnar SINTEF hafa alls 122 trillusjómenn farist við störf sín síðastliðin 22 ár eða frá árinu 1990. Slysin flokkast þannig að 53 dóu þegar bátar fórust, 40 drukknuðu eftir að hafa fallið fyrir borð út á rúmsjó, 15 drukknuðu í höfnum og 14 dóu í öðrum slysum tengdum starfi trillukarla.
Fiskerbladet/Fiskaren fjallar um þetta mál í dag. Bent er á að algengt sé að þeir smábátar sem farist eða lendi í vandræðum séu komnir vel til ára sinna og sjómennirnir á þeim sömuleiðis. Stjórnvöld hafi reynt að stemma stigu við sjóslysunum á minnstu bátunum með því að leggja til strangari reglur um búnað þeirra en þessum tillögum hafi verið mótmælt hástöfum því trilluútgerðirnar hafi ekki fjárhagslegan grundvöll til að mæta þeim.
Af þessum ástæðum hefur formaður Norges Fiskarlag, heildarsamtaka í norskum sjávarútvegi, lagt til að smábátaeigendur fái auknar veiðiheimildir til þess að geta endurnýjað báta sína og stækkað þá þannig að forsenda sé fyrir því að tveir menn verði jafnan á bátunum í stað eins nú.
Athugasemdir
Málið er að, sem er reyndar skrýtið að börn í Noregi læra ekki að synda fyrr en við 10 ára aldur. Hér hefur frá upphafi verið lögð mikil áhersla á sundkennslu í skólum. Það skiptir líka máli að þekkja vatn og geta bjargað sér á sundi, þó stundum sé það ekki hægt vegna kulda, en samt. Þegar maður lærir að synda verður maður öruggari í vatninu, ef þarf að taka sundtök til að ná til björgunarbátsins er eins gott að panikerka ekki á versta tíma. Þetta gæti verið hluti dæmisins.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.1.2012 kl. 15:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.